Meðgangan hefst við getnað en konan kemst ekki að því að um þungun hafi verið að ræða fyrr en um 2 vikum síðar. Þar sem erfitt er að segja nákvæmlega til um hvenær þungun á sér stað, er talið frá fyrsta degi síðustu blæðinga. Því er konan oftast komin 4-6 vikur á leið þegar hún kemst að því að hún sé ófrísk. Eðlileg meðgöngulengd er um 9 mánuðir, eða 37-42 vikur. Þarna getur munað heilum mánuði án þess að nokkuð sérstakt sé að. Gangi kona með í 40 vikur (9 mánuði) er hún meðvituð um meðgönguna í aðeins 8 mánuði (því hún komst að þunguninni eftir 4 vikur) Gangi kona hins vegar með í 37 vikur er hún í raun meðvituð um meðgönguna í aðeins 7 mánuði.

Fæðingarnar eru einnig jafn mismunandi og þær eru margar en eðlilegt er að fyrsta fæðing taki 12 stundir, þar af u.þ.b. 11 í útvíkkun (stigvaxandi miklar hríðir), 1 klukkustund í rembing og að lokum um 15 mínútur í fylgjufæðingu.

Sumar konur óttast það að ganga með og/eða fæða barn. Þrátt fyrir allan þann fjölda af konum sem gengið hafa í gegnum fæðingu getur óttinn við hið ófyrirsjáanlega verið til staðar. Flestar fæðingar ganga hins vegar stórslysalaust fyrir sig. Áður fyrr létust konur stundum af barnsförum en í dag er afar sjaldgæft að slíkt gerist, en orsökin var oftast nær vegna sýkinga sem auðvelt er að bregðast við nú til dags. Valkostir hvetja allar þungaðar konur til að leita sér upplýsinga til að eyða þeirri óvissu sem ferðalag meðgöngunnar getur haft í för með sér. Best er að tala við ljósmóðurina í mæðraeftirlitinu, eða fá upplýsingar hjá Mæðravernd, www.heilsugaeslan.is onnur-thjonusta/throunarstofa-heilsugaeslunnar/maedravernd/, þar sem meðal annars er boðið upp á foreldrafræðslunámskeið fyrir verðandi foreldra. Einnig eru í boði námskeið hjá heilsugæslustöðvunum í undirbúningi fæðingar, sjá nánar hér www.heilsugaeslan.is/?PageID=791

Brjóstagjöfin getur einnig reynst mörgum konum áhyggjuefni, sérstaklega þeim sem eru að eignast sitt fyrsta barn. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins býður upp á námskeið fyrir verðandi foreldra um brjóstagjöf. Þar er farið yfir helstu atriði brjóstagjafar sem gott er að vit um áður en barnið kemur í heiminn. Meðal annars er fjallað um framleiðslu mjólkur, stálma, geymslurými brjósta, tengslamyndun, næringargildi og verndandi áhrif brjóstagjafar á móður og barn. Nánari upplýsingar má finna hér um námskeiðin http://www.heilsugaeslan.is/?PageID=1614

Einnig er til hópur kvenna sem kallar sig "Stuðningskonur um brjóstagjöf". Konur sem hafa verið með börn á brjósti og hafa aflað sér þekkingar um brjóstagjöf miðla áfram þekkingu sinni til þeirra sem þurfa á henni að halda. Stuðningurinn sem er veittur er á jafningjagrundvelli og fer fram í gegnum tölvupóst. Öll ráðgjöf er að kostnaðarlausu. Sjá nánar: brjostagjafasamtokin.nepal.is Svo er líka öflug fyrirspurnarsíða á facebook, þar sem konur geta sett inn spurningu og stuðningskona svarar: https://www.facebook.com/groups/113693735330779/

Einnig er vert að benda á heimasíður eins og www.ljosmodir.is og www.doktor.is en þar er að finna mikið af fræðandi efni um meðgöngu, fæðingu, brjóstagjöf, tengslamyndun og annað þessu skylt. Þar að auki hafa komið út margar bækur er fjalla um þennan málaflokk. Bókin "Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð" hefur til dæmis að geyma fjöldann allan af íslenskum fæðingarsögum.

logo

Viltu skrá þig í samtökin eða verða að liði á einhvern hátt? Sendu okkur tölvupóst á netfangið valkostir@valkostir.is. Öll aðstoð er vel þegin.