Fæðingarþunglyndi

Almennt upplifa ca 10 til 15% kvenna einkenni fæðingarþunglyndis. Þau einkenni sem virðast hrjá þunglyndar nýbakaðar mæður frekar en aðrar konur með þunglyndi eru grátur, svefnleysi, pirringur og reiði, áhugaleysi gagnvart barninu og sektarkennd. Mesta hættutímabil fæðingarþunglyndis er frá ca. annarri viku eftir fæðingu til allt að átján mánuðum eftir fæðingu. Þeir þættir sem auka líkur á fæðingarþunglyndi eru m. a. saga um þunglyndi, skortur á félagslegum stuðningi, ótímabær þungun, lélegt samband við maka, að vera einstæð móðir, hafa barn ekki á brjósti, léleg fjárhagsleg staða, og líkamlegt ofbeldi. Fæðingarþunglyndi getur varað í marga mánuði, en um það bil 25 - 60% kvennanna ná sér þó yfirleitt innan 3 til 6 mánaða, og 15 - 25% ná sér innan 12 mánaða (Anna Kristín Guðmundsdóttir, Harpa Hlíf Bárðardóttir 2011 og Málfríður Stefanía Þórðardóttir, 2003).

Því miður virðast of fáar konur á Íslandi leita sér hjálpar vegna þunglyndis eftir fæðingu og ástandið er sjaldan greint að frumkvæði heilbrigðisstarfsfólks. Ástæðurnar eru taldar þær að konurnar gera sér oft ekki sjálfar grein fyrir því að þær eru þunglyndar og starfsfólk hefur ekki fengið nægilega þjálfun í að greina og meta einkennin. Einn af þeim kvörðum sem hefur verið þróaður til að greina og meta einkenni fæðingarþunglyndis og er nú notaður á Íslandi, kallast Edinborgar-þunglyndiskvarðinn og á að auðvelda heilbrigðistéttum að greina þunglyndi eftir fæðingu (Guðmundsdóttir og Bárðardóttir 2011 og Þórðardóttir, 2003).

Aðstoð

Á foreldrafræðslunámskeiðum gefst konum tækifæri til að ræða þunglyndi eftir barnsburð. Mikilvægt er að greint sé á milli eðlilegar depurðar og þunglyndis og fara yfir helstu einkenni og afleiðingar með móðurunni. Ef móðirin sækir ekki foreldrafræðslunámskeið er möguleiki að ræða um þunglyndi og afleiðingar þess í mæðraverndinni, og fá þar aðstoð og ráðgjöf með framhaldið. Einnig er hægt að fá viðtöl hjá félagsráðgjöfum og öðrum fagaðilum, ef þörf er á.

Allur tilfinningalegur stuðningur skiptir miklu máli fyrir nýbakaðar mæður, ýtir undir vellíðan og að konum finnist þær elskaðar og virtar. Einnig er mikilvægt að konur fái þá aðstoð sem þær þurfa á að halda til að geta orðið öruggar og virkar mæður. Algengast er að móðir eða maki veiti tilfinningalegan stuðning, en aðrir sem veita stuðning geta verið skyldfólk, vinkonur eða aðrir vinir. Jafningjahópar geta líka verið gagnlegir þegar ræða þarf um sameiginleg áhugamál eða vandamál.

Meira efni væntanlegt.

Heimildir:

Anna Kristín Guðmundsdóttir og Harpa Hlíf Bárðardóttir (2011). Fæðingarþunglyndi - Endurmat á Vinnuleiðbeiningum með EPDS kvarðanum. Lokaverkefni í Hjúkrunarfræði. Háskóli Íslands: Hjúkrunarfræðideild.

Málfríður Stefanía Þórðardóttir (2003). Ég hefði viljað fá meiri fræðslu: Heimildaúttekt á líðan og aðstæðum ungra þungaðra kvenna. Lokaverkefni í ljosmóðurfræði. Háskóli Íslands: Hjúkrunarfræðideild

logo

Viltu skrá þig í samtökin eða verða að liði á einhvern hátt? Sendu okkur tölvupóst á netfangið valkostir@valkostir.is. Öll aðstoð er vel þegin.