Foreldrar undir 18 ára aldri eru eðli málsins samkvæmt ekki sjálfráða. Þeir hafa engu að síður forræði yfir eigin börnum. Hér er samantekt á því helsta sem Valkostir vita til að er í boði fyrir unga foreldra. Samantektin er þó ekki tæmandi.

 

Foreldrahópar fyrir unga foreldra:

Ungt fólk með ungana sína: Hitt Húsið er menningar-og upplýsingamiðstöð þar sem ungu fólki (16-25 ára) er veitt ýmis aðstoð og ráðgjöf. Húsið stendur á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis, Pósthússtræti 3-5, s: 411-5500. Í Hinu Húsinu er meðal annars starfræktur hópurinn Ungt fólk með ungana sína. Eftir því sem Valkostir komast næst starfar hópurinn aðeins yfir vetrarmánuðina. Ungir foreldrar hittast einu sinni í viku, hlusta á áhugaverða fyrirlestra eða fara saman á kaffihús. Hópurinn er bæði fyrir unga foreldra og ungar ófrískar konur. Sjá nánar á heimasíðu Hins Hússins, www.hitthusid.is.

Ungar mæður. Hópur fyrir ungar mæður á aldrinum 16 til 25 ára. Sjá nánar Fecebook síðu hópsins: https://www.facebook.com/groups/89642716810/?ref=ts

Námskeið: Meðganga-móðir-barn er verkefni sem unnið er á vegum Félags Einstæðra Foreldra. Verkefnið er hugsað fyrir þungaðar einstæðar stúlkur/konur á aldrinum 15-35 ára. Félagsfræðingar leiða hópinn. Félagsmenn Félags einstæðra foreldra geta nýtt sér þetta námskeið. Hægt er að hafa samband við félagsráðgjafa á vegum félagsins frá klukkan 9-16 í síma 55 11 822 til að fá nánari upplýsingar eða skrá sig.

 

Fjárhagsaðstoð:

Foreldrar undir 18 ára aldri eru á framfæri foreldra sinna. Engu að síður geta þeir nýtt sér margvíslegan fjárhagslegan stuðning. Best er að hafa samband við þjónustumiðstöð bæjarfélagsins í sínu hverfi og panta tíma hjá félagsfræðingi / félagsráðgjafa á þeirra vegum til að fá upplýsingar um hvaða félagslegu úrræði og styrkir eru í boði í þínu sveitafélagi.
Fjárhæð stuðningsins er ákveðinn í hverju tilfelli fyrir sig. Einn ófjárráða viðmælandi Valkosta sagðist hafa fengið 135.000 á mánuði á einhverju tímabili.

Barnabætur: Foreldrar undir 18 ára aldri eiga rétt á barnabótum skv. heimild frá ríkisskattstjóra. Barnabætur eru greiddar fyrir hvert barn undir 18 ára aldri. Reikna má út fjárhæð barnabóta á rsk.is. Sem dæmi fær einstætt foreldri sem er með tekjur frá 0 til 1.8 milljónir á ári 379.087 krónur á ári með fyrsta barni, eða 94.772 krónur ársfjórðungslega. Barnabætur eru greiddar út 1. feb. 1. maí, 1. ágúst, og 1. nóv. Fyrsta greiðsla getur tafist en inniheldur þá uppsafnaðar barnabætur.

Atvinnuleysisbætur: Einstaklingur sem er orðinn 16 ára getur sótt um atvinnuleysisbætur ef hann hefur unnið 100% vinnu í a.m.k. 3 mánaði eftir 16 ára afmælisdaginn. 3 mánuðir tryggja 25% bótarétt.

Meðlag: Frá og með 1. janúar 2013 er fjárhæð meðlags kr. 25.175 Við sérstakar aðstæður er hægt að krefjast tvöfalds meðlags.

Fæðingarorlofssjóður: Allir foreldrar geta sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Ef foreldri er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi fær það greiddan fæðingarstyrk upp á 57.415 krónur mánaðarlega (miðað við árið 2013)

Ef foreldri er í fullu námi á það möguleika á fæðingarstyrk námsmanna, sem er mun hærri fjárhæð en fæðingarstyrkur. Heimildarmaður Valkosta veit þess dæmi að foreldri hafi fengið fæðingarstyrk námsmanna aðeins 16 ára.

Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands hjálpa foreldrum með margvíslegum hætti, sjá í kafla um almennan fjárhagsstuðning hér á síðunni. Einnig eru Valkostir í samstarfi við fólk sem hefur safnað peningum fyrir þann málstað að styðja við foredra.

logo

Viltu skrá þig í samtökin eða verða að liði á einhvern hátt? Sendu okkur tölvupóst á netfangið valkostir@valkostir.is. Öll aðstoð er vel þegin.