Samkvæmt upplýsingum á vef landlæknisembættisins, http://www.landlaeknir.is, hafa fóstureyðingar verið löglegar á Íslandi síðan árið 1935. Í fyrstu voru þær aðeins heimilaðar af læknisfræðilegum ástæðum, einkum til að bjarga lífi eða heilsu móðurinnar. Árið 1938 varð sú breyting að einnig mátti heimila fóstureyðingu þegar hætta var talin á erfðagöllum, fósturskaða eða vanskapnaði, og ef konu hafði verið nauðgað. Með lögunum sem sett voru árið 1975, var heimild til fóstureyðinga rýmkuð og hún heimiluð á félagslegum forsendum (t.d. ef kona er einstæð móðir eða í litlu sambandi við barnsföður) eingöngu, jafnt sem læknisfræðilegum. Fóstureyðing skal helst fara fram innan 12. viku meðgöngu, en eftir 16. viku er fóstureyðing heimiluð af læknisfræðilegum ástæðum.

Flestar fóstureyðingar eru framkvæmdar á Landsspítalanum. Félagsráðgjafar kvennadeildar Landspítala veita stuðning og ráðgjöf fyrir konur sem eru að íhuga fóstureyðingu. Samkvæmt upplýsingum úr bæklingnum "Fóstureyðingar, upplýsingarit", sem gefið er út af Landsspítala Háskólasjúkrahúsi, er ráðgjöfin hlutlaus og í fullum trúnaði. Konur eiga rétt á að fá upplýsingar um aðgerðina, áhættu henni samfara og þá félagslegu aðstoð sem þeim stendur til boða. Konur eru ekki beyttar þrýstingi til að velja aðra hvora leiðina.

Samkvæmt lögum þurfa stúlkur að fá samþykki foreldra sinna fyrir fóstureyðingu, ef þær ekki eru orðnar 16 ára gamlar. Ef konur velja að fara í fóstureyðingu þurfa þær að gangast undir læknisskoðun. Þar er tekin sjúkraskýrsla, gerð læknisskoðun og nauðsynlegar rannsóknir á heilsufari konunnar. Sjá nánar "Framkvæmd".

logo

Viltu skrá þig í samtökin eða verða að liði á einhvern hátt? Sendu okkur tölvupóst á netfangið valkostir@valkostir.is. Öll aðstoð er vel þegin.