II. kafli. Um fóstureyðingar.

 8. gr. Fóstureyðing samkvæmt lögum þessum er læknisaðgerð, sem kona gengst undir í því skyni að binda endi á þungun, áður en fóstrið hefur náð lífvænlegum þroska.

 9. gr. Fóstureyðing er heimil:

   1. Félagslegar ástæður: Þegar ætla má, að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Við slíkar aðstæður skal tekið tillit til eftirfarandi:

   a. Hafi konan alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði.

   b. Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.

   c. Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.

   d. Annarra ástæðna, séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.

   2. Læknisfræðilegar ástæður:

   a. Þegar ætla má, að heilsu konu, líkamlegri eða andlegri, sé hætta búin af áframhaldandi meðgöngu og fæðingu.

   b. Þegar ætla má, að barn, sem kona gengur með, eigi á hættu að fæðast vanskapað eða haldið alvarlegum sjúkdómi vegna erfða eða sköddunar í fósturlífi.

   c. Þegar sjúkdómur, líkamlegur eða geðrænn, dregur alvarlega úr getu konu eða manns til að annast og ala upp barn.

   3. Ef konu hefur verið nauðgað eða hún orðið þunguð sem afleiðing af öðru refsiverðu atferli.

 10. gr. Fóstureyðing skal framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans.

 Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Einnig skal fóstureyðing leyfileg eftir 16 vikur, séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.

 Slíkar undanþágur eru aðeins heimilar að fenginni skriflegri heimild nefndar, skv. 28. gr.

 11. gr. Áður en fóstureyðing má fara fram, verður að liggja fyrir skrifleg rökstudd greinargerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa sé eingöngu um félagslegar ástæður að ræða, enda sé hann starfandi í viðkomandi heilsugæsluumdæmi. Annar þessara lækna sé sérfræðingur í kvensjúkdómum eða almennum skurðlækningum við það sjúkrahús, þar sem aðgerðin fer fram, en hinn að jafnaði sá læknir eða félagsráðgjafi, sem ráðlagt hefur konunni að leita sjúkrahúss þessara erinda.

 Þar sem ástæða þykir til skal viðkomandi sérfræðingur styðjast við álitsgerð geðlæknis, sé um geðræna sjúkdóma að ræða.

 12. gr. Áður en fóstureyðing má fara fram, er skylt að konan, sem sækir um aðgerðina, hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerðinni og hún hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagsleg aðstoð henni stendur til boða í þjóðfélaginu. Öll ráðgjöf og fræðsla skal veitt á óhlutdrægan hátt.

 13. gr. Umsókn, greinargerð og vottorð skulu rituð á þar til gerð eyðublöð, sem landlæknir gefur út.

 Eftirfarandi atriða skal gætt:

   1. Kona skal skrifa sjálf undir greinargerð og umsókn um fóstureyðingu.

   2. Sé kona vegna geðsjúkdóms, mikils greindarskorts eða af öðrum ástæðum ófær um að gera sér grein fyrir nauðsyn aðgerðarinnar, þá er heimilt að veita leyfi til aðgerðarinnar samkvæmt umsókn lögráðamanns.

   3. Sé kona yngri en 16 ára eða svipt sjálfræði, skulu foreldrar eða lögráðamaður taka þátt í umsókn með henni nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

   4. Sé þess kostur, skal maðurinn taka þátt í umsókn konunnar, nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

   5. Hætti kona við aðgerð ber henni að staðfesta þann vilja sinn skriflega. Sé konu synjað um aðgerð á sjúkrahúsi skal henni og þeim, er undir greinargerð rita, tilkynnt það strax skriflega. Getur konan þá tafarlaust leitað þeirra úrræða, sem kveðið er á um í 28. gr., og er þeim, sem undir greinargerð hefur ritað, skylt að aðstoða hana í því.

 14. gr. Sjálfri aðgerðinni skal hagað eftir fyllstu viðurkenndum kröfum læknisfræðinnar til tryggingar því að konunni verði sem minnst um aðgerðina. Sama gildir og um allan aðbúnað konu er aðgerðin fer fram.

 15. gr. Einungis læknar mega framkvæma fóstureyðingu. Fóstureyðingu má aðeins framkvæma í sjúkrahúsum, þar sem sérfræðingur á sviði kvenlækninga eða sérfræðingur í almennum skurðlækningum starfar og ráðherra hefur viðurkennt í þessu skyni.

 16. gr. Áður en kona, sem gengist hefur undir fóstureyðingu, útskrifast af sjúkrahúsinu, skulu henni veittar leiðbeiningar um getnaðarvarnir. Ef konan er gift eða í sambúð, skal maðurinn, ef mögulegt er, einnig hljóta leiðbeiningar um getnaðarvarnir.

 

 Einnig skal konunni gert að skyldu að koma í eftirrannsókn að ákveðnum tíma liðnum til læknisskoðunar og viðtals.

Athugið að lög geta breyst án þess að Valkostir viti af því. Vissara er því að fylgjast með á heimasíðu alþingis eftir nýjustu lögum.

Heimild: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=%2Fwwwtext%2Fhtml%2Flagasofn%2F140a%2F1975025.html&leito=f%F3sturey%F0ing#word12

logo

Viltu skrá þig í samtökin eða verða að liði á einhvern hátt? Sendu okkur tölvupóst á netfangið valkostir@valkostir.is. Öll aðstoð er vel þegin.