Í þessum kafla verður fjallað um sálræna áhættuþætti fóstureyðinga. Tekið skal fram að ekki upplifa allar konur sálræn vandamál í kjölfar fóstureyðingar, sumar alls engin. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að stór hópur kvenna virðist vera í áhættuhóp hvað þetta varðar, og virðast konur sem upplifað hafa skort á stuðningi eða þrýsting frá öðrum við ákvarðanatökuna vera í hvað mestri áhættu. Af þeim sökum finnst okkur mikilvægt að miðla upplýsingum hér á síðunni um sálræna áhættuþætti, ekki bara fyrir konur í erfiðum aðstæðum heldur einnig fyrir aðstandendur og aðra sem standa konum nær. Tekið skal fram að allar rannsóknirnar sem vitnað er í eru erlendar, meðal annars frá Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Kanada. Því miður tókst okkur ekki að finna neinar íslenskar rannsóknir á þessu sviði.
Sálrænir áhættuþættir
Rannsóknir undanfarin ár hafa sýnt fram á tengsl milli fóstureyðinga og sálrænna vandamála hjá konum. Fundist hafa meðal annars tengsl við þunglyndi, kvíða, sjálfsmorðshugsanir og áfengis-og lyfjaneyslu. Einnig hafa rannsóknir og viðtöl við konur sem gengist hafa undir fóstureyðingu, leitt í ljós tengsl vid sjálfskaðandi hegðun, átraskanir, áfallastreituröskun, vandamál í hjónabandi/sambandi og erfiðleika við að tengjast og annast eigin afkvæmi.
Þrýstingur
Þær konur sem virðast vera í mestri áhættu við að glíma við sálræna áhættuþætti fóstureyðinga eru þær konur sem gangast undir fóstureyðingu vegna þrýstings eða skorts á stuðningi frá maka, foreldrum eða öðrum í nánasta umhverfi eða eru óvissar í ákvarðanatökunni. Enn fremur hafa rannsóknir sýnt að flestar konur sem fara í fóstureyðingu, eða á milli 65 og 70%, hafa neikvæð viðhorf til fóstureyðinga og um 30 til 60% þeirra láta á einhverjum tímapunkti í ljós löngun til að halda barninu. (Reardon, 1987, Zimmerman, 1977).
Í einni rannsókn sem gerð var á meðal 252 kvenna sem áttu að baki fóstureyðingu og glímdu við sálrænar afleiðingar í kjölfarið, kom í ljós að 53% kvennanna upplifðu að þær höfðu verið þvingaðar af öðrum til að fara í fóstureyðinguna. 65% upplifðu enn fremur að aðstæðurnar í heild sinni hefðu þvingað þær til að fara í fóstureyðingu. Aðeins 33% kvennanna upplifðu að þær höfðu tekið þessa ákvörðun sjálfar, frjálsar undan þrýstingi frá öðrum. Enn fremur sýndi rannsóknin að 83% kvennanna hefðu haldið áfram meðgöngunni ef þær hefðu fengið til þess stuðning , og 84% hefðu gert hið sama ef utanaðkomandi aðstæður hefðu verið betri (Reardon, 1987).
Skýrsla Guttmacher stofnunarinnar sem gerð var árið 2011, leiddi einnig í ljós að þrjár af hverjum fjórum konum sem gengið höfðu í gegnum fóstureyðingu sögðust hafa farið "af tillitsemi við aðra" eða vegna "ábyrgðartilfinningar gagnvart öðrum". Um 75% kvennanna nefndu einnig fjárhagsáhyggjur sem ástæðu og að barnið myndi hafa óæskileg áhrif á nám þeirra, vinnu og á tíma þeirra til að sinna öðrum ástvinum.
Stór hluti þessara kvenna fer samt sem áður í fóstureyðingu og virðast margar þeirra eiga á hættu að glíma við sálræn vandamál í kjölfarið. Hér koma tenglar á nokkrar þessara rannsókna:
Áfallastreita og sambandserfidleikar.
Nýleg bandarísk rannsókn, frá árinu 2010, sýndi fram á samband á milli lélegrar eða lítillar ráðgjafar fyrir fóstureyðingu og áfallastreituröskunar og annarra sálrænna vandamála. Bæði konur og karlar tóku þátt í þessari rannsókn, og sýndu niðurstöðurnar meðal annars fram á tengsl milli skorts á ráðgjöf fyrir fóstureyðinguna og sambandserfiðleika og áfallastreituröskunar í kjölfar fóstureyðingarinnar. Rannsóknina má nálgast hér: http://tmt.sagepub.com/content/16/1/16.abstract
Önnur nýleg rannsókn sýndi einnig fram á tengsl milli fóstureyðinga og erfiðleika í sambandi og það hjá báðum kynjum, en á mismunandi hátt. Sú rannsókn var ein sú fyrsta til að skoða afleiðingar fóstureyðinga á karlmenn og sambönd þeirra. Niðurstöðurnar sýndu fram á tengsl milli fóstureyðinga og erfiðleika í núverandi sambandi, og þá hvort heldur var að fóstureyðingin hafði átt sér stað með núverandi maka eða fyrrverandi. Rifrildi tengd fjármálum, börnum og ættingjum voru algengust hjá konunum, á meðan að rifrildi tengd afbrýðisemi, börnum og lyfjaneyslu voru algengust á meðal karla. Konur sem áttu að baki fóstureyðingu með núverandi eða fyrrverandi maka voru enn fremur líklegri til að glíma við vandamál tengd kynlífi á meðan karlmenn í sömu sporum upplifðu frekar vandamál tengd afbrýðissemi og lyfjaneyslu. Rannsóknina má nálgast hér: http://www.rachelsvineyard.org/PDF/Articles/Coleman.pdf
Þunglyndi, kvíði, áfengis- og lyfjaneysla, sjálfsmorðshugsanir.
Nýlegar rannsóknir hafa enn fremur sýnt fram á tengsl milli fóstureyðinga og ýmissa sálrænna vandamála. Nýleg og viðamikil rannsókn, birt í fagtímaritinu "British Journal of Psychiatry", sýndi til dæmis fram á að konur sem höfðu gengið í gegnum fóstureyðingu voru í aukinni áhættu á að glíma við kvíða, þunglyndi, og áfengis- og lyfjaneyslu. Einnig voru þær í aukinni áhættu við að reyna sjálfsvíg. Sjá nánar: http://bjp.rcpsych.org/content/199/3/180
Ofangreind rannsókn var þó gagnrýnd síðar af öðrum rannsakendum sem notuðust við sama kvarða, kóða og þýði en tókst þrátt fyrir það ekki að sýna fram á sömu niðurstöður. Niðurstöður þeirra sýndu ekki fram á fylgni við kvíða og þunglyndi, en sýndu hins vegar fylgni við áfengis-og lyfjaneyslu. Sjá nánar: http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S027795361000729X
Tove Ross Niklassen, danskur læknir, skrifar í grein er birtist í Læknablaðinu "Månedsskrift for Praktisk Lægegerning" í ágúst 1997, um reynslu sína í starfi á árunum 1960 til 1993. Tove hafði starfað sem læknir í 13 ár í Danmörku þegar lögin um "frjálsar fóstureyðingar" voru innleidd, og starfaði áfram í faginu í 20 ár eftir þá breytingu. Eftir að Tove hætti að starfa ákvað hún að kíkja í gegnum alla sína pappíra og gögn, og fann þar 117 sjúklinga, 117 konur sem gengið höfðu í gegnum fóstureyðingu. Eftir nánari skoðun, kom í ljós að í aðeins 25% tilvika höfðu fóstureyðingarnar verið framkvæmdar án nokkurra sýnilegra sálrænna afleiðinga hjá konunum, og að 30% kvennanna höfðu glímt við alvarlegar sálrænar afleiðingar í kjölfarið, svo sem þunglyndi, kvíða og sjálfsmorðshugsanir. Hægt er að lesa greinina hennar Tove í heild sinni hér: http://www.valkostir.is/index.php?option=com_content&view=article&id=79:psykiske-folger-af-provokeret-abort&catid=38:barneign
Kanadísk rannsókn frá árinu 2010, sýndi enn fremur fram á tengsl milli fóstureyðinga og sálrænna vandamála hjá konum. Þær konur voru t.d. líklegri til að lenda í lyfjaneyslu og glíma við sjálfsmorðshugsanir. Rannsóknina má nálgast hér: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20416147
Síðast en ekki síst hefur nýleg langtímarannsókn frá Nýja-Sjálandi vakið mikla athygli fagfólks víða um heim. Þar var fylgst með 500 konum frá fæðingu til 25 ára aldurs og kom í ljós að þær ungu konur í hópnum sem gengust höfðu undir fóstureyðingar voru líklegri en aðrar til að glíma við þunglyndi, samskiptaörðugleika, kvíðaköst og aðra geðræna kvilla ásamt því að vera líklegri til að reyna sjálfsvíg. Ekki var unnt að útskýra þennan mun á sálrænum vandamálum fyrir fóstureyðinguna. “Við höfðum hliðsjón af þjóðfélagsstöðu þeirra, menntun, kynþætti, fyrri geðrænum vandamálum, kynferðislegri misbeitingu, auk fjölda annarra þátta. Gögnin gáfu stöðugt til kynna þá óæskilegu pólitísku niðurstöðu, að það sé sjálf fóstureyðingin sem leiði til geðrænna kvilla í kjölfarið" (Fergusson, stjórnandi rannsóknarinnar Í viðtali við The New Zealand Herald). Sjá nánar: http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/16405636?dopt=Abstract
Vanræksla og misbeiting.
Fundist hafa því miður tengsl milli fóstureyðinga og vanrækslu og misbeitingar mæðra gagnvart börnunum sínum. Í tímaritinu "The Journal of Prenatal and Perinatal Psychology and Health" er til dæmis greint frá fjórum mismunandi rannsóknum þar sem niðurstöðurnar gefa til kynna þessi tengsl. Þær konur sem gengið höfðu í gegnum fóstureyðingu voru líklegri en aðrar til að vanrækja börnin sín eða beita þau ofbeldi á einhvern hátt. Samkvæmt rannsakendum gæti þessi tenging verið komin til vegna þess að konurnar þjást af þunglyndi og/eða kvíða í kjölfar fóstureyðingarinnar. Bæði kvíði og þunglyndi geta haft neikvæð áhrif á geðtengslamyndun foreldris og barns. Kvíði og þunglyndi móðurinnar gæti því verið hugsanleg skýring á þessum niðurstöðum.
Það sem er kannski sérstaklega áhugavert við þessi tengsl er að oft hefur því verið haldið fram í umræðunni um fóstureyðingar, að greiður aðgangur kvenna að fóstureyðingum muni í raun minnka tíðnina á vanrækslu og misbeitingu gagnvart börnum, þar sem færri "óvelkomin börn" komi í heiminn. Nidurstöðurnar hér virðast hins vegar sýna hið gagnstæða, það er að afleiðingar fóstureyðinga, kvíði og þunglyndi mæðra geti í raun haft neikvæð áhrif á samband þeirra vid börnin sem þær seinna eignast, og aukið líkur á vanrækslu og misbeitingu gagnvart þeim.
Niðurstöðurnar leiddu enn fremur í ljós að þær ófrísku konur sem ekki fengu stuðning frá maka voru líklegri en aðrar til að missa barnið eða fara í fóstureyðingu. Nálgast má niðurstöðurnar hér: http://birthpsychology.com/journal-article/relationship-between-induced-abortion-and-child-abuse-and-neglect-four-studies
Samantekt
Í 1. mgr 12. gr. laga nr. 25/1975 segir orðrétt: "Áður en fóstureyðing má fara fram, er skylt að konan, sem sækir um aðgerðina, hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerðinni og hún hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagsleg aðstoð henni stendur til boða í þjóðfélaginu. Öll ráðgjöf og fræðsla skal veitt á óhlutdrægan hátt".
Í ljósi þeirra niðurstaðna, að fóstureyðingar geti haft í för með sér alvarlegar sálrænar afleiðingar, þá hlýtur að teljast mikilvægt að einhvers konar lágmarks fræðsla fari fram um þá áhættu, áður en konur taka ákvörðun um ad eyða fóstri. Einnig er mikilvægt að konum sem hafa farið í fóstureyðingu og upplifa sálræn vandamál í kjölfarið standi til boða fagleg aðstoð. Hið sama ætti að vera í boði fyrir karlmenn.