Óski kona þess að ganga með barn og gefa það frá sér til ættleiðingar, hefur hún um tvo kosti að ræða., að eiga barnið hérlendis eða erlendis.
Hérlendis
Það fyrsta sem þarf að gera er að hringja í Barnavernd í hennar umdæmi. Síminn hjá Barnavernd Reykjavíkur er 411 92 00. Þar svarar fólk sem leiðbeinir viðkomandi áfram, skref fyrir skref.
Konan getur hvort heldur hún vill haft samband áður en barnið fæðist eða eftir fæðinguna, en best er að hafa samband sem fyrst. Í samráði við móðurina er ákveðið hvort barnið verði sótt á fæðingardeildina af þeim sem ætla að ættleiða það eða hvort móðirin fer sjálf með barnið til barnaverndaryfirvalda.
Það er best fyrir barnið ef því fylgja einhverjar upplýsingar s.s. um hver faðirinn er en ef konan vill ekki gefa það upp af einhverjum ástæðum er það yfirleitt virt.. Stundum er heldur ekki hægt að hafa samband við föðurinn t.d. ef konan verður ófrísk eftir mann sem hún hittir í fríi erlendis. Yfirleitt er þó reynt að leita eftir samþykki föðurins fyrir ættleiðingu.
Ef konan vill ekki að barnið geti fundið hana síðar á lífsleiðinni þarf hún að hafa samráð um það við ættleiðingarforeldrana.
Konan getur treyst því að verðandi foreldrar barnsins hafa verið rannsökuð af barnaverndarnefnd. Þannig er tryggt eins og kostur er að barnið fari til hæfra og góðra foreldra.
Eftir að kona hefur gefið barn sitt til ættleiðingar þá á hún í raun engan rétt á að fá sendar myndir af því eða slíkt en ef hún óskar þess þá er unnið að því að finna foreldra sem eru jákvæðir fyrir því. Oftast eru ættleiðingarforeldrar jákvæðir fyrir slíku.
Samkvæmt þeim svörum sem við í Valkostum höfum fengið frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, þá er hvert tilvik sem kemur upp metið á eigin forsendum, og sú kona sem íhugar að ættleiða frá sér barn fær allan þann tíma sem hún þarf til að ákveða sig. Hvert tilvik er einstakt og reynt er að vinna alla vinnuna í góðri samvinnu vid konuna. Nánari upplýsingar hvað ferlið varðar er hægt ad fá hjá Barnavernd Reykjavíkur.
Á síðustu 3 árum hafa komið upp tvö tilfelli þar sem íslenskar konur hafa beðið um að barnið þeirra verði ættleitt. Annað þessara barna var sótt á fæðingardeildina. Almennt gengur þetta vel fyrir sig og konan er viss um vilja sinn.
Ef kona ákveður að hún vilji gefa barn til ættleiðingar á meðan hún er enn ófrísk, getur Barnavernd komið henni í samband við félagsráðgjafa ef hún vill fá stuðning í þessu ferli.
Kona þarf ekki að óttast það að ekki finnist fólk sem vill ættleiða barnið hennar. Listinn er langur af hjónum á Íslandi sem vilja ættleiða og ala önn fyrir litlu barni.
Erlendis
Valkostir stefna á að koma á samstarfi við samtök erlendis. Þá gæti konan fengið að vera erlendis meðan á meðgöngu og fæðingu stæði og gæfi barnið til ættleiðingar þar. Ísland er lítið land og væri þetta kostur fyrir þær konur sem ekki vilja hitta barnið síðar meir eða vilja ekki svara spurningum sem fylgja því að ganga með barn. Konan gæti e.t.v. stundað nám á meðan á dvölinni stæði.