Áður fyrr voru börn oft tekin af mæðrum sínum, án þess að mæðurnar fengju leyfi til að sjá börnin og vera með þeim.Talið var að það væri bæði móður og barni fyrir bestu og myndi auðvelda aðskilnaðinn. Upp úr 1950 fóru hins vegar rannsóknir að birtast sem sýndu hið gagnstæða, það er að mæður sem ekki fengu að sjá börnin sín og eyða með þeim tíma áður en þær létu þau af hendi til kjörforeldra, væru í raun í aukinni áhættu á að upplifa tilfinningalegt ójafnvægi, sektarkennd, sorg, og jafnvel þunglyndi eftir ættleiðinguna (Edling, 1954 og Gough, 1961). Mæðurnar áttu erfitt með að halda áfram, eins og ekkert hefði í skorist, og sumar upplifðu mikinn missi og sorg, rétt eins og ef að barnið þeirra hefði dáið.

Fleiri rannsóknir fóru að birtast á árunum 1970 til 1980, sem sýndu svipaðar niðurstöður, tengsl við sektarkennd, sorg, missi, kvíða og auk þess tengsl við aukna áfengis- og lyfjaneyslu. Í kjölfarið fóru rannsakendur að leggja meiri áherslu á að mæður fengju að sjá börnin sín, kynnast þeim og eyða tíma með þeim eftir fæðinguna. Tilgangurinn var sá að hjálpa mæðrum til að skilja betur tilfinningar sínar gagnvart börnunum sínum og undirbúa þær betur andlega til að láta börn sín af hendi til kjörforeldranna. Einnig var niðurstaðan sú að mæður þyrftu á meiri faglegri ráðgjöf að halda fyrir ættleiðinguna, og meiri stuðning í kjölfar ættleiðingarinnar. (Pannor et al, 1978, Silverman 1981, Charlton et al, 1998).

Í dag er yfirleitt staðið öðruvísi að ættleiðingum en áður var. Mæðurnar fá að sjá börnin sín og eyða tíma með þeim og mælt er með faglegri og einstaklingsmiðaðri ráðgjöf og aðstoð, bæði á meðgöngu og í kjölfar ættleiðingarinnar. Áhættan á sálrænum afleiðingum í kjölfar þess að gefa barn til ættleiðingar er þó alltaf fyrir hendi. Misjafnt er hvernig konur ná að vinna úr tilfinningum sínum í kjölfar þessarar stóru ákvörðunar sem að gefa barn til ættleiðingar er, og því er mikilvægt að konur fái allan þann stuðning og aðstoð sem þær þurfa á að halda í ferlinu. Þar virðist skipta miklu máli að mæðurnar sjálfar fái að tjá skoðanir sínar hvað varðar val á kjörforeldrum, heimilisaðstæðum og öðru sem máli skiptir. Einnig er mjög mikilvægt að þær finni að ákvörðunin sé þeirra, en ekki að þær séu undir þrýstingi eða þvingaðar af öðrum til að gefa barnið til ættleiðingar (Winkler and Van Keppel, 1984 og Charlton et al, 1998).


Í dag hefur möguleikinn um svokallaðar "opnar ættleiðingar" orðið algengari, þar sem móðirin fær að halda sambandi við kjörforeldrana, fær sendar myndir af barninu og fær jafnvel að hitta barnið af og til. Einnig er orðið algengara að mæðurnar sjálfar taki þátt í vali á kjörforeldrum. Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar valkostinn opnar ættleiðingar, þá er til dæmis hægt að skoða heimasíðu ættleiðingarfélagsins "Adoption Connection", sem er eitt elsta og stærsta ættleiðingarfélag í Bandaríkjunum. Þar er hægt að finna hafsjó af upplýsingum um ættleiðingarferlið, reynslusögur kvenna sem gefið hafa börn til ættleiðingar, reynslusögur foreldra sem ættleitt hafa börn og fleira, sjá nánar: http://www.adoptionconnection.org/

Því miður tókst okkur ekki að finna íslenskar rannsóknir þar sem könnuð hefur verið líðan kvenna sem gefið hafa börn til ættleiðingar. Hins vegar rákumst við í leit okkar á áhugaverða íslenska rannsókn frá árinu 2006, sem sýndi mjög jákvæðar niðurstöður hvað varðar líf og líðan ættleiddra barna erlendis frá á Íslandi. Tengslamyndun virtist hafa gengið vel, um 94% kjörforeldranna í rannsókninni staðhæfðu að þeir hefðu náð að mynda sterk geðtengsl við barnið sitt innan við ár frá ættleiðingu. Einnig sýndu niðurstöðurnar að börnin virtust búa við góðar heimilisaðstæður og góðan aðbúnað. Rúm 60% kjörmæðra og tæp 50% kjörfeðra höfðu háskólamenntun. Flest barnanna áttu í góðum samskiptum við foreldra sína og systkini, og einnig æfðu mörg þeirra íþróttir eða áttu sér önnur áhugamál utan skóla. Aðeins 5% barnanna höfðu upplifað skilnað (Hermannsdóttir og Oddsdóttir, 2006). Ættleiddum börnum virðist því farnast vel á Íslandi, og aðstæður þeirra eða aðbúnaður á engan hátt verri en annarra barna, jafnvel þvert á móti í sumum tilfellum.

 

Samkvæmt þeim svörum sem við í Valkostum höfum fengið frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafa ættleiðingar á Íslandi verið það sjaldgæfar undanfarin ár að engin ákveðin verkferli hafa verið í notkun hvað varðar þann málaflokk. Hvert tilvik er einfaldlega metið fyrir sig, og umfram allt reynt að vinna alla vinnuna í góðri samvinnu við móðurina. Okkur hefur jafnframt skilst að konur fái allan þann faglega stuðning og aðstoð sem þær á þurfa að halda í ferlinu, en nánari upplýsingar hvað það varðar er hægt að fá hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur í síma 411 9200.

 

 

Heimildaskrá

Charlton, L., Crank. M., Kansara, K. and Oliver, C. (1998) Still Screaming: Birth Parents Compulsorily Separated from their Children. Manchester: After Adoption.

Edlin, Sara B, The Unmarried Mother In Our Society: A Frank and Constructive Approach to an Age-Old Problem, Farrar, Straus and Young, New York, 1954.

Gough, Donald, Adoption and the unmarried mother, Standing Conference of Societies Registered for Adoption: Report of conference at Folkestone, 1961. In Robert Tod, ed, Social Work in Adoption: Collected Papers, Longman, 1971.

Hermannsdóttir, S.B. & Oddsdóttir, L.B. (2006). Hvernig farnast ættleiddum börnum erlendis frá á Íslandi? Félagsvísindadeild Háskóla Íslands.

Pannor, Reuben, MSW; Baran, Annette, MSW; Sorosky, Arthur D, Md, Birth Parents Who Relinquished Babies for Adoption Revisited, Family Process, Vol 17, September, 1978.

Silverman, Phyllis R, Helping Women Cope With Grief, Sage Publications, 1981, Chapter 4: The Grief of the Birthmother.

Winkler, R. and Van Keppel, M. (1984) Relinquishing Mothers in Adoption: Their Long Term Adjustment. Melbourne: Institute of Family Studies.

logo

Viltu skrá þig í samtökin eða verða að liði á einhvern hátt? Sendu okkur tölvupóst á netfangið valkostir@valkostir.is. Öll aðstoð er vel þegin.