Við viljum með stofnun þessa félags beina sjónum okkar að þeim valkostum sem eru í boði fyrir þungaðar konur á Íslandi og að þeirri aðstoð sem hægt er að fá, bæði á meðgöngu og eftir að barnið er fætt.

Því miður sjá margar konur sér ekki fært að ganga með og eignast börnin sín. Ástæður geta verið mismunandi, t.d. skortur á stuðningi frá maka, fjölskyldu eda öðrum í nánasta umhverfi, erfiðar félagslegar aðstæður og/eða fátækt.

Við viljum vera til staðar fyrir þann hóp kvenna sem vilja eignast börnin sín en oft á tíðum telja sig knúnar til að velja fóstureyðingu vegna erfiðra utanaðkomandi aðstæðna. Fimmta hver þungun á Íslandi í dag endar með fóstureyðingu.

Við gerum okkur grein fyrir því að sumar konur fara í fóstureyðingu af frjálsum vilja og eru algjörlega sáttar við val sitt. Það val virðum við.

Tilgangi sínum ætlar félagið m.a. að ná á eftirfarandi hátt:

  • Með fræðslu þar sem staðreyndum er komið á framfæri, m. a. um þá aðstoð sem í boði er á vegum félagsins, eða annars staðar í samfélaginu.
  • Með því að koma upp stuðningsneti fólks sem vill gerast stuðningsfjölskyldur eða á annan hátt aðstoða konur í erfiðum aðstæðum.
  • Með því að safna peningum m.a. til að standa undir kostnaði og til að geta styrkt konur sem þurfa á því að halda.
  • Með því að halda úti netfangi þangað sem ófrískar konur í erfiðum aðstæðum geta leitað ef þær vilja.
  • Með því að vinna að því að fá til landsins meðlimi erlendra samtaka með svipaðan tilgang.
  • Með því að vinna að því að ættleiðing verði raunhæfari valkostur.
  • Með því að vinna með félögum og fólki sem stjórnin telur að stuðli að framgangi markmiðs félagsins.

Stefna stjórnar fyrir komandi starfsár skal einkennast af skýrum mælanlegum markmiðum eftir því sem hægt er.

logo

Viltu skrá þig í samtökin eða verða að liði á einhvern hátt? Sendu okkur tölvupóst á netfangið valkostir@valkostir.is. Öll aðstoð er vel þegin.